Skip to main content

Íbúar hjúkrunarheimila hafa afar gaman af því að fá heimsóknir vina og ættingja. Starfsemi hjúkrunarheimilanna er oftast erilsöm á morgnana en róast eftir hádegi og seinnipartinn, það er því hentugast koma í heimsóknir á þeim tímum. Á hjúkrunarheimilum Vigdísarholts eru iðjuþjálfar og félagsliðar sem m.a. halda uppi afþreyingu fyrir íbúa. Markmið iðjuþjálfunar er að efla lífsgæði, virkni og þátttöku íbúanna ásamt því að koma í veg fyrir einmanaleika, vanmáttarkennd og einangrun. Sjúkaþjálfar hafa það að markmiði okkar er að styðja íbúa til þess að stunda reglubundna hreyfingu, viðhalda, bæta eða draga úr skerðingu á hreyfifærni og stuðla að líkamlegri og andlegri vellíðan. Yfir sumartímann er dregið úr starfsemi iðju- og sjúkraþjálfunar vegna sumarleyfa.

Öll hreyfing hefur gríðarlega jákvæð áhrif á líkamsstarfsemi aldraðra, hún dregur úr hættu á sáramyndun, dregur úr hættu á byltum og óróleika íbúa ásamt því að bæta almenna líðan. Aðstandendur geta hjálpað til við að auka líkamlega virkni og bæta andlega líðan íbúa. Hér fyrir neðan eru ýmsar hugmyndir að gæðastundum:

  • Spila, tefla, púsla
  • Kíkja í tölvu, Ipad, síma
  • Göngutúr, innan- og utanhúss
  • Hjóla á hjólinu okkar (Skjólgarður, Sunnuhlíð)
  • Kíkja á kaffihús, í búð, á rúntinn
  • Gera léttar leikfimiæfingar saman
  • Sitja saman út í garði eða sólstofu
  • Lesa bók saman, ljóð eða kvæði
  • Koma með gæludýr í heimsókn
  • Skoða myndaalbúm
  • Gera handavinnu, föndra
  • Taka þátt í félagsstarfinu
  • Horfa á sjónvarp eða hlusta á sögu
  • Hárþvottur, setja rúllur í hárið
  • Handanudd, handsnyrting, lökkun
  • Pússa gleraugu, þrífa heyrnatæki
  • Litun, plokkun, förðun
  • Fótabað, fótanudd, fótsnyrting