Skip to main content

Saga Vigdísarholts

Vigdísarholt er rekstraraðili þriggja hjúkrunarheimila – Sunnuhlíð í Kópavogi, Seltjörn á Seltjarnarnesi og Skjólgarður á Höfn í Hornafirði. Upphaflega var Vigdísarholt stofnað í janúar 2014 með það að markmiði að taka yfir rekstri Sunnuhlíðar. Í ársbyrjun 2019 var Vigdísarholt beðið fyrir rekstri hjúkrunarheimilisins Seltjörn að Safnatröð 1 á Seltjarnarnesi. Það var nýbyggt 40 manna hjúkrunarheimili ásamt dagdvöl eldri borgara. Fyrstu heimilismennirnir fluttu inn í lok marsmánaðar sama ár. Skjólgarður bætist svo við í hópinn frá og með 1. mars 2021. Það er 27 manna hjúkrunarheimili sem er einnig selur mat til grunnskóla Hornafjarðar og til ýmiss konar þjónustu úrræða í sveitarfélaginu og sér um heimsendan mat.

Forsaga Sunnuhlíðar.

Þann 17. mars 1979 var sjálfseignarstofnunin “Hjúkrunarheimili aldraða í Kópavogi” stofnuð. Að stofnuninni stóðu 11 félög; Kvenfélag Kópavogs, Rauðakrossdeild Kópavogs, Lionsklúbburinn Muninn, Lionsklúbbur Kópavogs, Rotaryklúbbur Kópavogs, Kirkjufélag Digranessafnaðar, Kiwanisklúbburinn Eldey, Junior Chamber, Kópavogi, Soroptimistaklúbbur Kópavogs. Árið 1987 bættist Lionsklúbburinn Ýr í hópinn, en Junior Chamber gekk út árið 1998. Á árinu 2001 gerðust Félag eldri borgara í Kópavogi og Rotaryklúbburinn Borgir aðilar að sjálfseignarstofnuninni. Samstarfsvettvangur félaganna hefur gengið undir nafninu Sunnuhlíðarsamtökin.

Í apríl 1978 hafði Soroptimistaklúbbur Kópavogs boðað formenn og fulltrúa frá öllum þjónustuklúbbum og félögum í Kópavogi til fundar, þar sem til umræðu voru málefni aldraðra Kópavogsbúa. Aðkallandi var að fá lausn á málefnum sjúkra, aldraðra í Kópavogi, en ekkert hjúkrunarrými var til í bænum, og miklum erfiðleikum bundið að koma öldruðum sjúklingum inn á sjúkrahús í Reykjavík. Samþykkt var tillaga frá fulltrúa Rauðakrossdeildar Kópavogs um að stofna sjálfseignarstofnun um byggingu hjúkrunarheimilis fyrir aldraða með aðild hinna ýmsu félaga í Kópavogi.

Byggt var upp fjársöfnunarkerfi, sem náði til allra Kópavogsbúa. Söfnunarbaukar (niðursuðudósir, með rauf, merktar söfnuninni) voru bornir inn á hvert heimili í Kópavogi með tilmælum um að hver og einn legði til hliðar sem svaraði hálfu strætisvagnafargjaldi á dag. Drjúgur hluti byggingakostnaðar safnaðist á þennan hátt. Þá færðu einstaklingar, félög, fyrirtæki og stofnanir stærri gjafir, ríkið lét af hendi byggingarlóð og endurgreiddi tolla og söluskatt af byggingarefni, en Kópavogsbær lagði fram fé sem nam um 15 af hundraði af útlögðum byggingarkostnaði.

Hinn 26. janúar 1980 tók Ragnhildur Guðbrandsdóttir fyrstu skóflustungu að hjúkrunarheimilinu. Ragnhildur var þá elsti íbúi Kópavogs, 101 árs gömul, og var afrek hennar skráð í heimsmetabók Guinness, þar sem hún var elst allra í heiminum, sem slíkt verk hafa unnið. Reisugildi var síðan haldið 23. maí 1981 og sóttu það á þriðja þúsund gestir. Mun þetta vera fjölmennasta reisugildi, sem haldið hafði verið á Íslandi og sýnir vel þá miklu samstöðu, sem ríkti um þetta verkefni meðal Kópavogsbúa. Tæpu ári seinna, eða 20 maí 1982 var haldin vígsluhátíð þar sem heimilinu var gefið nafnið “Sunnuhlíð”. Fimm dögum seinna kom svo inn fyrsti íbúinn, en það var sjálfur Þórður Þorsteinsson á Sæbóli, fyrrverandi hreppstjóri Kópavogshrepps. Sunnuhlíð var fyrsta sérhannaða hjúkrunarheimili fyrir aldraða á Íslandi.

Skömmu eftir að byggingu hjúkrunarheimilisins lauk, ákvað fulltrúaráð Sunnuhlíðar að byggja þjónustuíbúðir fyrir aldraða í tengslum við hjúkrunarheimilið og voru Sunnuhlíðarsamtökin stofnuð sem rekstraraðili íbúðanna. Á sama tíma var byggður þjónustukjarni vestan við hjúkrunarheimilið og var hann formlega opnaður við hátíðlega athöfn 17. nóvember 1989. Um leið tók til starfa dagvist fyrir aldraða, Dagdvöl.

Á aðalfundi Sunnuhlíðar 17. mars 1999 var samþykkt að fela stjórninni að hefja undirbúning að stækkun hjúkrunarheimilisins sem hefur ekki en hafist en vonandi rætist úr því.

Í Sunnuhlíð eru nú rekin 66 almenn hjúkrunarrými, 4 rými fyrir skammtímainnlögn með endurhæfingu og dagdvöl fyrir 30 einstaklinga. Á Seltjörn eru 40 hjúkrunarrými og 24 dagdvalarrými. Á Skjólgarði eru 27 hjúkrunarrými og 3 sjúkrarými sem eru rekin í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Suðurlands.