Skip to main content

Þeir einstaklingar, 60 ára og eldri, sem hafa áhuga á að þjálfa upp styrk, snerpu, liðleika og jafnvægi geta nú hafið heilsueflingu í Smart líkamsrækt Sunnuhlíð í Kópavogi.

Fyrir um tveimur árum tók hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi ákvörðun um að fara af stað með verkefni sem miðar að því að bæta kost eldra fólks til að stunda  fjölbreytta og góða styrktarþjálfun, á öruggan og markvissan hátt.

Bylting á aðstöðu til styrktarþjálfunar í Sunnuhlíð

Frá því verkefnið var sett af stað hefur Sunnuhlíð, með aðstoð góðra styrktaraðila, gert sannkallaða byltingu á aðstöðu sinni til styrktarþjálfunar. Tekin hafa verið í notkun ný og fjölbreytt styrktarþjálfunartæki sem eru hönnuð sérstaklega fyrir eldra fólk. Tækin eru með loftmótstöðu sem dregur úr álagi á liði og mjúkvefi. Þau er þægileg í notkun og tengd tölvubúnaði sem gerir notkun í senn einfalda og markvissa.

Smart líkamsrækt Sunnuhlíð

Sunnuhlíð vill sýna gott fordæmi þegar kemur að því að skapa tækifæri fyrir eldra fólk til að stunda heilsueflingu í gegnum hreyfingu. Verkefnið sem Sunnuhlíð setti af stað fyrir tveimur árum endurspeglar þessa áherslu og afraksturinn er opnun Smart líkamsræktar fyrir 60 ára og eldri í æfingasal hjúkrunarheimilisins. Opnun Smart líkamsræktar er leið Sunnuhlíðar til að stuðla að forvörnum og jafna aðgengi að heilsueflingu.

Aðgangur að tækjasal og hóptímar hjá þjálfara

Hægt er að skrá sig í hóptíma hjá þjálfara en einnig er möguleiki að vera eingöngu með aðgang að tækjasalnum. Gert er ráð fyrir að þeir sem eru með kort í sal án þjálfara geti verið nokkuð sjálfbjarga í tækjasalnum svo það getur verið gott að skrá sig í hóptíma til að koma sér af stað. Val er milli tvennslags hóptíma. Annars vegar hóptíma þar sem unnið er með styrk og teygjur og hins vegar hóptíma þar sem unnið er með styrk, snerpu, jafnvægi og æfingar sem miða að því að þjálfa eða viðhalda færninni að standa upp frá gólfi. Í öllum hóptímum er unnið út frá færni og getu hvers og eins.

Skrefin þrjú til að hefja heilsueflingu í Smart líkamsrækt Sunnuhlíð

Fyrsta skrefið til að hefja heilsueflingu í Smart líkamsrækt Sunnuhlíð er að hringja í síma 854 8972 eða mæta á staðinn og skrá sig í frían prufutíma til að læra á tækin. Næsta skref er að meta  hvort áhugi beinist að hóptímum hjá þjálfara eða eingöngu aðgangi að tækjasal. Þriðja skrefið er að versla sér viðeigandi kort í salinn. Frekari upplýsingar er að finna á www.vigdisarholt.is/sunnuhlid-smartlikamsraekt og hjá starfsfólki í Smart líkamsrækt Sunnuhlíð.

Sunnuhlíð hvetur alla sem hafa áhuga að hafa samband og skrá sig í prufutíma.

Styrktaraðilar Smart líkamsræktar Sunnuhlíð

Styrktaraðilar Smart líkamsræktar Sunnuhlíð eru:

  • Oddfellow, Rbst. nr. 7, Þorgerður
  • Oddfellow, Rbst. nr. 17, Þorbjörg
  • Rótarýklúbburinn Borgir
  • Sunnuhlíðarsamtökin