Skip to main content

Tannlæknaþjónusta er eitt af því sem mikilvægt er að halda áfram að sinna eftir að einstaklingar flytja á hjúkrunarheimili. Stundum getur verið erfitt fyrir íbúa hjúkrunarheimila að fara á sína tannlæknastofu sökum heilsu sinnar. Sumir íbúanna  upplifa skert lífsgæði vegnar lélegs ástands eigin tanna og/eða gervitanna. Þetta hefur oft í för með sér verri færni í að tyggja matinn, meltingarvandamál og við sjáum kannski færri bros 😊. Þetta á líka við þá einstaklinga sem eru með gervitennur, það þarf að huga að því að gómar passi vel, því að holdið getur rýrnað.

Sumir íbúar eru skráðir hjá sínum tannlækni og fara til þeirra í skoðun a.m.k. einu sinni á ári. En því miður eru einhverjir sem hafa ekki farið í langan tíma og einhverjir sem ekki hafa sinn eigin tannlækni.

Nú hefur Vigdísarholt náð samkomulagi við tannlækni um að sinna tannlæknaþjónustu á Sunnuhlíð og Seltjörn fyrir þá sem ekki komast á tannlæknastofu. Tannlæknirinn mun sinna almennri tannumhirðu, t.d. viðgerðum, úrdráttum, gómaviðgerðum, gómagerðum og hreinsunum og allt þar á milli. Aðal markmið þessarar þjónustu er að ná sjúklingum sýkingarlausum, verkjalausum og auðvelda almenna munnhirðu.

Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í greiðslu á tannlækningum hjá þessum sjúklingahóp. Öll tannlæknavinna er innifalin en tannsmíðavinna er greidd að hluta til eftir samningum sjúkratrygginga.