Skip to main content

„Nýtt hjúkrunarheimili strax” og „Einbýli takk” stendur á kröfuspjöldum eldri borgara á Hornafirði sem mótmæltu seinagangi við byggingu nýs hjúkrunarheimilis. Upphaflega átti framkvæmdum að ljúka í lok ársins 2021. Uppfærð áætlun var með verklok í byrjun árs 2023. Þegar útboðinu lauk hafnaði ráðuneytið lægsta tilboðinu því það þótti of dýrt og liggur nú málið hjá framkvæmdasýslu ríkisins. Ekkert bólar á framkvæmdum.

Halla Bjarnadóttir starfaði um áratugaskeið á Hjúkrunarheimilinu Skjólgarði á Höfn í Hornafirði. Nú eru hún orðin 91 árs og er sjálf flutt þar inn. Hún vonaðist til þess að nýtt hjúkrunarheimili yrði tilbúið en nú eru aðeins teikningar uppi á vegg. Það hefur tafist í mörg að að hefja framkvæmdir.

„Þetta er allt og lítið, fyrst og fremst, og þetta eru allt tveggja manna herbergi. Það er bara svona tjald á milli og það er ekkert einkalíf sem fólkið á. Það hefur ekkert afdrep út af fyrir sig. Við erum til dæmis tvær á herbergi. Okkur kemur ekkert illa saman en ef annar aðilinn fær heimsókn þá er þetta allt opið. Manni er skaffað rúm og náttborð og svo kom ég með kommóður til að geyma dót í. Plássið er svo lítið. Við viljum að það verði byggt þetta nýja hjúkrunarheimili sem er búið að standa til í mörg ár að byggja,“ segir Halla.  Sjá frétt á ruv.is.

Íbúarnir lásu upp opið bréf til Heilbrigðisráðherra í mótmælunum og kröfðust þess að nýja framkvæmdir hefjist án tafar. Segir meðal annars í bréfinu.

„Ef þarf að veita okkur persónulega þjónustu varðandi hreinlæti, lyfjagjafir, sáraumbúnað eða meðferðasamtöl er aðeins tjald á milli okkar og nágrannans í næsta rúmi. Einstaklingar með einkenni heilabilunar hafa ekkert rými til að vera illa áttaðir í friði án þess að trufla aðra. Einstaklingar með hegðunarvanda hafa heldur ekkert rými til að forðast áreiti og fá útrás og geta því verið ógnandi og valdið öðrum kvíða og vanlíðan“.

Er það einlæg von okkar hjá Vigdísarholti að ráðuneytið verið við ósk íbúanna án tafar eins og segir í bréfi þeirra til heilbrigðisráðherra.