Ný HUR styrktarþjálfunartæki tekin í notkun í sjúkraþjálfun Sunnuhlíðar
Fyrr í þessum mánuði gerðum við okkur glaðan dag í sjúkraþjálfun Sunnuhlíðar til þess að halda upp á stórbætta aðstöðu til styrkarþjálfunar. Það hefur verið langþráður draumur hjá okkur í sjúkraþjálfuninni að geta boðið þeim sem nýta þjónustuna upp á fjölbreyttari og betri styrktarþjálfun. Fyrir ári síðan ákvað stjórn Sunnuhlíðar að fara með okkur í það verkefni að bæta aðstöðu til styrktarþjálfunar og stefnan var tekin á að koma okkur upp 10 mismunandi styrkarþjálfunartækjum frá finnska fyrirtækinu HUR. Þetta voru háleit markmið og ljóst að þeim yrði ekki náð nema með aðkomu styrktaraðila. Þátttaka styrkaraðila í verkefninu fór fram úr okkar björtustu vonum því í ágúst síðastliðnum tókum við í notkun sex ný HUR styrkarþjálfunartæki með SmartTouch tölvukerfi og fjögur þeirra voru gjöf frá styrkaraðilum. Sunnuhlíðarsamtökin gáfu fótspyrnutæki, Rótarýklúbburinn Borgir trissutæki og Rebekkustúka nr. 7 (Þorgerður) innan Oddfellow samtakanna hnéréttu/-beygjutæki og armréttutæki. Til að ljúka fyrsta áfanga verkefnisins og fagna saman þessu mikilvæga framfararskrefi fyrir styrktarþjálfun aldraðra var haldinn gleðskapur í sjúkraþjálfuninni. Þar færðum við styrkaraðilunum að verkefninu okkar bestu þakkir og tækin voru formlega afhent. Þetta var frábær dagur eins og myndirnar sýna. Æft, borðað, spjallað og skálað.