Skjólgarður hjúkrunarheimili fagnaði 50 ára afmæli sínu síðastliðinn föstudag, þann 8. nóvember.
Elli- og hjúkrunarheimilinu var komið á fót með samstilltu átaki margra aðila en óhætt er að eigna stærsta heiðurinn að tilkomu þess Sambandi austur-skaftellskra kvenna. Stefnan var ávallt sú að hefja starfsemina í nýju húsi sem mundi henta starfseminni en til að flýta fyrir opnun keypti sýslusjóður eitt Viðlagasjóðshúsanna, Hvannabraut 3, og leigði annað, Hvannabraut 5, undir rekstur elli- og hjúkrunarheimilis. Húsin stóðu hlið við hlið, 120 fermetrar að grunnfleti hvort. Enn fremur skipaði sýslunefnd nefnd til þess að annast rekstur heimilisins. Það var síðan þann 8. nóvember 1974 sem Elli- og hjúkrunarheimili Austur-Skaftafellsssýslu var formlega tekið í notkun. Þá höfðu þegar fæðst þar fimm börn og öllum rúmum sem öldruðum var ætlað, átta eða níu talsins hafði verið ráðstafað. Þegar heimilið tók til starfa voru fastráðnir starfsmenn tíu, þar af þrír í hlutastarfi. Vilborg Einarsdóttir ljósmóðir gegndi stöðu forstöðumanns, Sigrún Hermannsdóttir stöðu yfirhjúkrunarkonu og Kjartan Árnason héraðslæknir var læknir heimilisins.
Starfsemin Skjólgarðs var að Hvannabraut allt til ársins 1996 og varð því ekki af nýbyggingu fyrr en þá líkt og stefnt var að stofnun heimilisins. Það er líklega gömul saga á ný þar sem byggingin 1996 var eingöngu hugsuð sem fyrri áfangi af tveimur og var í raun úrelt um leið og hún var tekin í notkun. Strax árið 2003 var farið að berjast fyrir nýrri byggingu sem varð síðan ekki að veruleika fyrr en árið 2019 þegar efnt var til hönnunarsamkeppni fyrir byggingu nýs hjúkrunarheimilis við Skjólgarð. Nú standa framkvæmdir yfir og er vonast til þess að geta flutt inn í nýbygginguna snemma á næsta ári.
Starfsemi Skjólgarðs er blómleg þó þröngar vistarverur hafi töluverð áhrif. Starfsmenn Skjólgarðs eru í dag um 50 talsins og hefur mönnun gengið vel. Hjúkrunarrými á Skjólgarði eru 27 ásamt því að þar eru 3 sjúkrarými sem eru rekin í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Starfsmenn og íbúar eru orðin mjög spennt fyrir því að flytja í nýtt hús á næsta ári en þá taka við endurbætur á gamla húsnæðinu.
Afmælinu var fagnað með lítilli athöfn þann 8. nóvember þar sem íbúar, starfsmenn og aðstandendur komu saman á balli með Ekrubandinu ásamt því að bæjarstjórn mætti. Það verður blásið til stærri hátíðarhalda þegar starfsemin verður komin í nýtt hús snemma á næsta ári þar sem gestum og gangandi verður boðið í heimsókn.