Skip to main content

Íbúðir Sunnuhlíðarsamtakanna eru á þremur stöðum:

Kópavogsbraut 1A

Kópavogsbraut 1A er 5 hæða hús með 40 björtum og fallegum íbúðum. Húsið er tvær byggingar með rúmgóðum og björtum tengigangi á milli. Á hverri hæð eru fjórar íbúðir í hvorri byggingu, alls átta íbúðir á hæð. Fyrir hverjar 4 íbúðir er sameiginleg geymsla. Einnig fylgir hverri íbúð geymsla á jarðhæð.  Í húsinu eru 15 þriggja herbergja (80 fm) íbúðir, 20 tveggja herbergja (60 fm) íbúðir og 5 stofuíbúðir (50 fm) (stúdíóíbúðir). Á efstu hæð (sjöttu hæð) er samkomusalur fyrir íbúa með útsýni til allra átta. Á jarðhæð er björt og góð setustofa, þar sem dagblöðin liggja frammi fyrir íbúana til aflestrar og einnig stórt herbergi sem hægt er að nota undir tómstundir.

Innangengt er úr Kópavogsbraut 1A eftir tengigangi í Þjónustukjarna Sunnuhlíðar, þar sem boðið er upp á ýmsa þjónustu. Hægt er að kaupa hádegisverð á vægu verði, hársnyrtingu og fótsnyrtingu. Einnig eru þar ýmsar uppákomur, bæði á vegum íbúa og Sunnuhlíðar.  Sundlaug Kópavogs er í göngufæri og stutt er í miðbæ Kópavogs þar sem er margvísleg þjónusta, verslanir, bankar, heilsugæsla, bókasafn, listasafn o.fl. Göngustígakerfi Kópavogs er tengt húsunum og þaðan eru margar fallegar gönguleiðir út á Kársnesið og inn í Kópavogsdalinn.

Kópavogsbraut 1B

Kópavogsbraut 1B er 5 hæða hús með 40 björtum og fallegum íbúðum. Húsið er tvær byggingar með rúmgóðum og björtum tengigangi á milli. Á hverri hæð eru fjórar íbúðir í hvorri byggingu, alls átta íbúðir á hæð. Fyrir hverjar 4 íbúðir er sameiginleg geymsla. Í húsinu eru 15 þriggja herbergja (80 fm) íbúðir, 20 tveggja herbergja (60 fm) íbúðir og 5 stofuíbúðir (50 fm) (stúdíóíbúðir). Á efstu hæð (sjöttu hæð) er lítil setustofa fyrir íbúa með útsýni til allra átta og þar liggja dagblöðin frammi fyrir íbúa til aflestrar. Á jarðhæð er samkomusalur með eldhúsi.

Göngustígur tengir Kópavogsbraut 1B við Þjónustukjarna Sunnuhlíðar, þar sem boðið er uppá ýmsa þjónustu. Hægt er að kaupa hádegisverð á vægu verði, hársnyrtingu og fótsnyrtingu. Einnig eru þar ýmsar uppákomur, bæði á vegum íbúa og Sunnuhlíðar.  Sundlaug Kópavogs er í göngufæri og stutt er í miðbæ Kópavogs þar sem er margvísleg þjónusta, verslanir, bankar, heilsugæsla, bókasafn, listasafn o.fl.  Göngustígakerfi Kópavogs er tengt húsunum og þaðan eru margar fallegar gönguleiðir út á Kársnesið og inn í Kópavogsdalinn. Gamli Kópavogsbærinn stendur fyrir neðan húsið og er hann friðaður.

Fannborg 8

Fannborg 8 er 6 hæða bygging, og þar eru 29 íbúðir á 5 hæðum. Í húsinu eru 10 þriggja herbergja (76-84 fm) íbúðir, 15 tveggja herbergja (ca. 70 fm) íbúðir og 4 stofuíbúðir (54 fm) (stúdíóíbúðir) Á jarðhæð er félagsmiðstöðin Gjábakki og er hægt að komast þangað í lyftu hússins, þegar félagsmiðstöðin er opin. Á annarri hæð er aðalinngangur í íbúðarhúsið og þar er setustofa fyrir íbúa. Inngangur er einnig á jarðhæð þar sem eru yfirbyggð bílastæði. Í setustofunni liggja dagblöðin frammi fyrir íbúana til aflestrar. Stutt er í alla þjónustu. Verslanir, banki, heilsugæsla, bókasafn, sundlaug, listasafn o.fl. eru í göngufæri.

Félagsheimilið Gjábakki er á jarðhæðinni í Fannborg 8 og er miðstöðin starfrækt af Kópavogsbæ, en félagsstarf aldraðra er mjög öflugt í Kópavogi. Opið er frá kl 9:00 til 16:00 alla virka daga. Þar er hægt að setjast niður í notalegu umhverfi yfir kaffibolla og heimabökuðu meðlæti, lesa dagblöðin, horfa á sjónvarp, hlusta á útvarp og ræða málin.

Hádegisverður er framreiddur frá kl. 11:40 – 12:20 alla virka daga. Hádegisverð þarf að panta fyrir kl. 15:00 daginn áður í síma 554-6611 (Gjábakki) eða síma 564-5260 (Gullsmári). Hægt er að fá heimsendan mat að uppfylltum ákveðnum skilyrðum en nánari upplýsingar um heimsendan mat veita þjónustustjórar félagslegrar heimaþjónustu í síma 570-1500. Félagsheimilin eru opin fólki á öllum aldri óháð félagsaðild, en sú starfsemi sem er niðurgreidd er eingöngu ætluð eldra fólki, búsettu í Kópavogi.

Fjármögnun – eignarfyrirkomulag

Íbúðirnar eru fjármagnaðar með þeim hætti að íbúarnir tryggja sér íbúðarrétt með því að greiða andvirði íbúðarinnar, en kaupa ekki sjálfa íbúðina á hefðbundinn máta. Væntanlegir íbúar gera íbúðarréttarsamning við Sunnuhlíð sem gildir til æviloka íbúa eða skemur ef íbúi flytur varanlega í annað húsnæði. Samningurinn, sem er mjög ítarlegur, kemur í stað afsals. Þegar samningi er sagt upp er andvirði íbúðarréttargjalds endurgreitt til íbúðarréttarhafa eða aðstandenda þeirra samkvæmt nánari ákvæðum í samningi.

 

Mánaðargreiðslur í hússjóð. Íbúar greiða enga húsaleigu, en leggja mánaðarlega fram fé í hússjóð til sameiginlegs reksturs og viðhalds sem Sunnuhlíð sér um. Í hússjóðnum eru m.a. innifaldir eftirtaldir kostnaðarliðir:

  • Allt viðhald á samnýtanlegu húsnæði húseignarinnar, utan húss sem innan
  • Viðhald lóðar (Kópavogsbraut 1A og 1B):
  • Varsla allan sólarhringinn. Svörun flyst yfir til Securitas eftir lokun skrifstofu og á frídögum. Securitas sér um fjarvöktun allan sólarhringinn
  • Ræsting samnýtanlegs rýmis: gangar, stigar og anddyri
  • Snjómokstur
  • Allur rafmagnskostnaður af samnýtanlegu rými, utan húss sem innan
  • Allur hitakostnaður hússins, einnig íbúða
  • Fasteignargjöld skipt á 12 mánuði. Hægt er að sækja um afslátt af fasteigngjöldum hjá Kópavogsbæ.