Vigdísarholt tekur þátt í þróunarverkefni um námsefni í íslensku en Mímir símenntun er fræðslufyrirtæki sem starfar á sviði framhaldsfræðslu og starfsmenntunar. Mímir fékk styrk frá Þróunarsjóði framhaldsfræðslu til að vinna námsefni í íslensku fyrir starfsfólk af erlendum uppruna sem vinnur við umönnun og hjúkrun á hjúkrunarheimilum. Vigdísarholt hjúkrunarheimili vinna með Mími í verkefninu ásamt Helix Health sem er tæknifyrirtæki á sviði velferðarþjónustu.
Námsefnið byggir á smáforritinu Iðunni sem Helix þróaði en það er notað til rauntímaskráningar á umönnun og hjúkrunarverkum á hjúkrunarheimilum. Markmið verkefnisins er að byggja á langri reynslu hjá Mími af starfstengdum íslenskunámskeiðum og þróa og hanna námsefni og námskeið sem nýtist á starfstengdum íslenskunámskeiðum og sem byggir á raunefni úr smáforritinu Iðunni og samstarfi við Vigdísarholt. Námsefnið mun hjálpa fólki af erlendum uppruna sem starfar á hjúkrunarheimilum að samþætta starfstengdan orðaforða við aukna færni í samskiptum á íslensku við jafnt íbúa og samstarfsfólk.
Hér má sjá mynd úr kennslustund á íslenskunámskeiði sem fram fór á Seltjörn.